Árangur Samfylkingarinnar á kjörtímabilinu

Á kjörtímabilinu 2014 til 2018 hafa bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lagt fram ýmsar tillögur varðandi áhersluatriði flokksins sem hafa verið samþykktar í bæjarráði og bæjarstjórn. Flestar hafa tillögurnar verið lagðar fram við gerð fjárhagsáætlunar en einnig við önnur tækifæri. Hér fara á eftir þær tillögur sem bæjarfulltrúar okkar náðu fram.

Tillögur við gerð fjárhagsáætlana.

Frístundaávísun

Bæjarfulltúar Samfylkingar náðu tvívegis fram hækkun á frístundaávíun á kjörtímabilinu. Lögð var fram tillaga um hækkun í 30.000 krónur fyrir árið 2015. Afdrif þeirrar tillögu urðu að málsmeðferðartillaga  var samþykkt þannig að frístundaávísun var hækkuð um 10% og sérstakar hækkanir teknar upp fyrir barnmargar fjölskyldur.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu aftur til hækkun frístundaávísunar fyrir árið 2018 í  50.000 krónur.  Sú tillaga var samþykkt við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2018.

Afsláttur af fasteignagjöldum til efnaminni eldri borgara og öryrkja

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tillögu við fyrstu fjárhagsáætlun þessa kjörtímabils þ.e. fyrir árið 2015 um hækkuð tekjumörk vegna afsláttar af fasteignagjöldum efnaminni eldri borgara og öryrkja og að þau yrðu færð til samræmis við nágrannasveitarfélög. Þessi tillaga var samþykkt við afgreiðslu fjárhagsáætlunar og hefur þetta samræmi haldist síðan

Lýðræðisverkefnið Okkar Mosó

Við fjárhagsáætlun ársins 2015 lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingar til að sett yrði á fót verkefni í anda lýðræðisverkefnisins Betri Reykjavík til að þróa áfram íbúalýðræði og virka þátttöku íbúa þar sem ákveðin uppæð færi í að framkvæma verkefni sem íbúar legðu til og kysu um. Þessari tillögu var vísað til bæjarráðs þar sem þurfti að ýta talsvert á eftir henni en varð loks að veruleika vorið 2017.

Ungmennahús

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tillögu við gerð fjárhagsáætlunar 2015 um stofnun Ungmennahúss. Tillögunni var vísað áfram til meðferðar bæjarráðs. Þar gerðist ekkert svo bæjarfullt´ruarnir endurfluttu tillöguna við afgreiðslu fjárhagsáætlunar ársins 2016. Í þetta sinn fór tillagan fyrir bæjarráð og var samþykkt í október 2016 að hefja starfsmei Ungmennahúss í tengslum við Framhaldsskólann.

Leikskólagjöld

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2017 lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingar fram tillögu um að leikskólagjöld yrðu lækkuð til samræmis við nágrannasveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Tillagan var felld með atkvæðum D og V lista. Við gerð fjárhagsáætlunar 2018 fluttu bæjarfulltrúarnir aftur tillögu um lækkun leikskólagjalda og var tillagan samþykkt að þessu sinni.

Hafragrautur í skólum

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2017 lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar til að boðið yrði upp á endurgjaldslausan hafragraut í grunnskólum bæjarins. Kom fram málsmeðferðartillaga um að hafa á boðstólum hafragraut fyrir ákveðna aldurshópa í grunnskólum á hentugum tíma. Ekkert gerðist í þessu máli svo bæjarfulltrúarnir endurflutt tillögu um hafragraut við gerð fjárhagsáætlunar ársins  2018 sem var samþykkt. Framkvæmd þessa verkefnis hefur þó ekki verið eins og ætlast var til og tilefni til að endurflytja tillöguna á nýju kjörtímabili.

Grænt skipulag

Tillaga um gerð græns skipulags hafði verið lögð fram af fulltrúa Samfylkingarinnar í skipulagsnefnd og samþykkt í bæjarstjórn. Lítið gekk við það verkefni svo bæjarfulltrúar lögðu fram tillögu við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2018 um að settar yrðu 2 milljónir í verkefnið svo hefja mætti það af krafti. Þessi tillaga var samþykkt við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.

Aðrar tillögur

#MeToo #iskuggavaldsins

Bæjarráðsfulltrúi Samfylkingarinnar setti á dagskrá bæjarráðs umræðu um stefnumörkun og verklagsreglur bæjarins í kjölfar metoo byltinga íslenskra kvenna og lagði til að stefna og verklagsreglur varðandi einelti og áreitni á vinnustað yrðu yfirfarnar m.t.t. þess hvort þessi plögg svöruðu því ákalli sem bærist úr öllum kimum samfélagsins.

Niðurstaðan varð sameiginleg bókun bæjarráðs og endurskoðun fór í gang sem lauk með uppfærðum verklagsreglum og viðbragðsáætlun.

Hinsegin fræðsla í grunnskólum

Á bæjarstjórnarfundi sem haldinn var 19. júní 2015 var að frumkvæði bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar tekin til umræðu hinsegin fræðsla og mikilvægi hennar. Bæjarstjórn öll sameinaðist um bókun um hinsegin fræðslu í skólum Mosfellsbæjar.

Móttaka flóttamanna

Þann 28. ágúst 2015 óskaði bæjarráðsfulltrúi Samfylkingarinnar eftir því að bæjarráð tæki til umfjöllunar tillögu um að Mosfellsbær lýsi vilja við velferðarráðuneytið til að taka þátt í móttöku flóttamanna frá stríðshrjáðum svæðum. Þess skal getið að annað framboð óskaði nokkrum dögum síðar eftir svipaðri umræðu. Niðurstaða þessarar umræðu varð að Mosfellsbær lýsti vilja sínum við ráðuneytið og málið fór í vinnslu. Nú á vordögum 2018 fluttu nýir íbúar frá Uganda til Mosfellsbæjar.