Börnin í fyrsta sæti – Svör við spurningum Foreldrafélags Varmárskóla.

Samfylkingin setur börnin í fyrsta sæti og leggur höfuðáherslu á skólamál eins og eins og ávalt. Hér fara á eftir svör Samfylkingarinnar við spurningum Foreldrafélags Varmárskóla sem sendar voru til frambjóðenda og birtar í Mosfellingi 17. maí.

Svörin voru birt á Facebooksíðu Foreldrafélagsins:

Foreldrafélag Varmárskóla óskar eftir svörum við eftirfarandi spurningum um skólamál sem sendar eru á öll framboð og verða jafnframt birtar í Mosfellingi þann 17. maí. Svör framboða verða birt á samfélagsmiðlum.

Munuð þið beita ykkur fyrir því að:

1. Gera úttekt til að tryggja að húsnæði og aðstaða til skóla- og frístundastarfs sé fullnægjandi og samrýmist kröfum um heilsuvernd?
Svar: Samfylkingin telur afar mikilvægt að allur aðbúnaður barna sé eins og best verður á kosið og styður að sjálfsögðu úttekt á umræddu húsnæði. Við viljum setja stefnu til framtíðar um uppbyggingu skólamannvirkja og þ.m.t. markvisst viðhald þeirra.

2. Endurskoða menntastefnu Mosfellsbæjar og tryggja skólunum nauðsynlegt fjármagn til að geta unnið eftir henni?
Svar: Endurskoðun skólastefnu bæjarins er löngu tímabær enda gilti hún aðeins frá 2010-2015 og furðulegt að hún skuli ekki hafa verið endurskoðuð nú þegar. Fjármögnun skólastarfs er forgangsverkefni að áliti Samfylkingarinnar.

3. Efla faglega þjónustu við nemendur og kennara með því að fjölga faglærðu fólki innan skólanna og auka þverfaglegt samstarf milli þeirra?
Svar: Samfylkingin leggur áherslu á að styrkja starfsumhverfi kennara með því að auka aðgengi að sérhæfðu starfsfólki á ýmsum fagsviðum. Þannig er hægt að mynda öflug og samstíga teymi svo auðveldara verði að mæta ólíkum þörfum nemenda. Stuðningur við börn á að miðast við þarfir þeirra en ekki að vera háður læknisfræðilegum greiningum.

4. Nýta með markvissum hætti niðurstöður innlendra sem erlendra mælinga sem gerðar eru á námsárangri og líðan barna til að gera betur?
Svar: Samfylkingin hefur alltaf talið og telur enn að það sé tímasóun að gera mælingar sem ekki er unnið markvisst úr. Þess vegna er svarið við spurningunni já.

5. Vinna markvisst gegn einelti og huga betur að bættri líðan barna og ungmenna? Niðurstöður Rannsókna og greininga sýna að kvíði og vanlíðan barna og unglinga í Mosfellsbæ fer vaxandi.
Svar: Samfylkingin telur nauðsynlegt að skólum bæjarins verði gert kleift að sinna af krafti starfi gegn einelti og viðbrögðum við auknum kvíða og vanlíðan, sjá svar 3. Við viljum móta forvarnastefnu og í framhaldinu lýðheilsustefnu bæjarins sem allar stofnanir og samtök sem sinna börnum og ungmennum og njóta styrkja frá bænum vinni eftir.

6. Endurskoða úrræði fyrir börn með sérþarfir og leggja áherslu á snemmtæka íhlutun og markviss inngrip án þess að greining þurfi endilega að vera forsenda fjárveitinga?
Svar: Eins og segir í svari við spurningu 3 þá viljum við að stuðningur við börn miðist við þarfir þeirra en eigi ekki að vera háður læknisfræðilegri greiningu.

7. Veita öflugri stuðning við börn og ungmenni í hegðunar- og samskiptavanda með aukinni ráðgjöf og ráðningu fleiri sérhæfðra starfsmanna?
Svar: Mjög miklvægt atriði sem við teljum afar brýnt að sinna, sjá svar við spurningu 3.

8. Móta heildstæða stefnu um upplýsingatækni í skóla- og frístundastarfi og tryggja að innleiðingu fylgi stuðningur sérfræðinga í upplýsingatækni, skólaþróun og kennsluráðgjöf og nauðsynlegt fjármagn til að bæta búnað?
Svar: Samfylkingin vill móta heildstæða stefnu um nýtingu stafrænnar tækni í skóla- og frístundastarfi. Innleiðing þeirrar stefnu kallar að sjálfsögðu á fjármagn, ráðgjöf og öfluga símenntun. Tækniframfarir í nálægri framtíð kalla á áherslu á upplýsingatæknimál.

9. Gefa nemendum aukin tækifæri til að kynnast störfum í iðn-, raun- og tæknigreinum og styrkja tengsl milli skóla og atvinnulífs með markvissri náms- og starfsfræðslu og vettvangsferðum?
Svar: Samfylkingin telur mjög nauðsynlegt að kynna nemendur fyrir mismunandi tækifærum í atvinnulífinu og vill styrkja þann þátt i skólastarfi.

10. Unnið sé markvisst í skólastarfi eftir markmiðum um heilsueflandi samfélag þar sem heilsa spannar líkamlega, andlega og félagslega vellíðan?
Svar: Samfylkingin vill að í öllu starfi með börnum og ungmennum sé starfað í samræmi við 3ja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um heilbrigt líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar. Við teljum mikilvægt að setja stofnunum bæjarins forvarnastefnu og í framhaldinu lýðheilsustefnu, sjá svar við spurningu 5. Þá viljum innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í allt starf og ákvarðanaferla bæjarins.- og að grunngildi hans m.a. um að menntun barns skuli beinast að því að rækta persónuleika, hæfileika og andlega og líkamlega getu þess endurspeglist í nýrri skólastefnu Mosfellsbæjar.

11. Auka samstarf við foreldrasamtök og tryggja aðkomu foreldra að stefnumótandi ákvörðunum um skóla- og frístundastarf?
Svar: Samfylkingin vill endurskoða skólastefnu Mosfellbæjar í samstarfi við foreldra og skólasamfélagið allt. Þá teljum við nauðsynlegt að bærinn móti forvarnastefnu eins og fram kemur hér að ofan. Engin stefnumótun á að eiga sér stað án aðkomu þeirra sem helst eiga hagsmuna að gæta.